Ratsjáin með markaðsstofum landshlutanna
Þann 18.nóvember hófst sérstök Ratsjá þar sem allar markaðsstofurnar sjö taka þátt í þriggja mánaða fræðslu og þróunarferðalagi, þvert á landshlutana. Er þetta í fyrsta skipti sem Ratsjáin er keyrð með þessum hætti en hingað til hefur verkefnið verið í boði fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu og tengdum rekstri.
Með Ratsjánni er stigið mikilvægt skref í átt að markvissari, sjálfbærari og samstilltari þróun á sviðum sem snerta alla landshluta, óháð stærð eða staðsetningu.
Verkefnið er fjármagnað að hluta til úr aðgerðaáætlun stjórnvalda.
Mikilvægi samstarfs
Ferðaþjónustan nær yfir landið allt og áskoranir hennar, jafnt sem tækifæri, virða engin landamæri. Þess vegna skiptir máli að markaðsstofurnar vinni saman að sameiginlegri sýn, miðli þekkingu og finni lausnir sem gagnast öllum. Þverfaglegt samstarf auðveldar:
samræmda þróun og stefnu,
betri nýtingu þekkingar og reynslu,
sterkari rödd gagnvart samstarfsaðilum og stjórnvöldum,
og aukinn slagkraft í markaðs- og nýsköpunarverkefnum.
Ratsjáin skapar sameiginlegan vettvang til að taka þessi skref á skipulegan hátt – þar sem allir landshlutar fá að móta umræðuna og eiga jafnt hlutverk í framtíðarsýninni.
Hvernig voru þemun valin?
Þemun byggja á greiningu á þeim áskorunum og tækifærum sem íslensk ferðaþjónusta stendur frammi fyrir næstu árin, ásamt framtíðarsýn og áherslumarkmiðum markaðsstofanna. Starfsmenn markaðsstofanna sjálfra forgangsröðuðu þemunm en þau eru valin með það að markmiði að styðja:
Nýsköpun og þróun – hvernig við sköpum áfangastaði framtíðarinnar.
Hönnun og upplifun – hvernig íbúar og gestir upplifa landið og þjónustuna sem við bjóðum.
Sjálfbærni og samfélagsleg áhrif – hvernig við verndum verðmæti og byggjum upp betri stöðu til framtíðar.
Gögn, stefnumótun og mælikvarða – hvernig við styðjum ákvarðanir með betra læsi á gögn, innleiðum nýja tækni og ákveðum mælikvarða.
Hver lota dregur fram sértækar spurningar og kveikjur sem hjálpa þátttakendum að skoða framtíðina út frá ólíkum sjónarhornum, en með sameiginlegri stefnu í huga.
Að vinna saman fyrir sterka framtíð
Ratsjá Markaðsstofanna 2025 er því ekki aðeins verkefni heldur ferli sem styrkir stoðir ferðaþjónustunnar í heild. Með því að vinna þvert á landið, deila þekkingu og skapa sameiginlega sýn, byggjum við upp betri, skýrari og stöðugri ferðaþjónustu fyrir framtíðina.

