Samtal um framtíð ferðaþjónustu í Ölfus

Innsýn í uppbyggingu og tækifæri

Kynningarfundur ferðaþjónustunnar í Ölfusi var haldinn í Ráðhúsi Ölfuss fimmtudaginn 20. nóvember og var vel sóttur af ferðaþjónustuaðilum, fyrirtækjum og samstarfsaðilum. Fundurinn markaði mikilvægt skref í sameiginlegri stefnumótun og einkenndist af öflugu samtali og mikilli framtíðarorku.

Í upphafi fundar setti Páll Marvin Jónsson, framkvæmdastjóri Ölfus Cluster, fundinn, fór yfir markmið fundarins og sagði m.a. frá vinnu við gerða Atvinnustefnu Sveitarfélagsins þar sem að áætlað er að Ferðaþjónustan verði ein af framtíðarstoðum Atvinnusköpunar í Sveitarfélaginu.

Ferðaþjónustuklasi í Ölfusi (sjá kynningu)

Innsýn í uppbyggingu og tækifæri

Á fundinum fluttu erindi lykilaðilar innan sveitarfélagsins og greinarinnar:

  • Grétar Ingi Erlendsson, formaður bæjarráðs Ölfus, dró fram þá miklu breidd og styrk sem felst í fjölmörgum ferðaþjónustufyrirtækjum í sveitarfélaginu. Hann lagði áherslu á að þau væru mörg, öflug og fjölbreytt — og að þessi breidd væri sterkur grunnur fyrir áframhaldandi uppbyggingu. Hann fór einnig yfir helstu framtíðaráform og verkefni sem liggja fyrir sveitarfélagið á sviði ferðaþjónustu.  Framtíð ferðaþjónustu (sjá kynningu) 

  • Ásta Kristín Sigurjónsdóttir, framkvæmdastjóri Íslenska Ferðaklasans, fjallaði um samstarfsvettvang, sameiginlega stefnumótun og hvernig ferðaþjónustan getur unnið saman í innviðum, þróun og vörusköpun.

  • Hallgrímur Kristinsson, frumkvöðull og þróunarstjóri hjá Icelandia, miðlaði reynslu og dró fram ný og spennandi tækifæri sem hann sér í Ölfusi—með áherslu á nýsköpun og óhefðbundnar leiðir.

    Að loknu erindi Hallgríms undirrituðu þau Páll Marvin Jónsson og Ásta Kristín Sigurjónsdóttir undir samstarfssamning og inngöngu Ölfus Cluster í Íslenska Ferðaklasans.

Góðar umræður – sameiginleg sýn á áskoranir og tækifæri

Að loknum erindum opnaðist fyrir opið samtal þar sem þátttakendur ræddu stöðu ferðaþjónustunnar í Ölfusi og þau viðfangsefni sem blasa við á næstu misserum. Í umræðunum komu skýrt fram bæði jákvæð tækifæri og áskoranir sem mikilvægt er að vinna áfram með.

Þátttakendur lögðu áherslu á stór tækifæri sem felast í landfræðilegri sérstöðu sveitarfélagsins, meðal annars tengingum við Hengilssvæðið, Eldfjallaleiðina og Suðurstrandarveg, sem og möguleikum á að styrkja upplifanir og nýta náttúru svæðisins betur. Þá var einnig rætt um mikilvægi þess að styðja grasrótina — frumkvöðla og fyrirtæki sem eru þegar að skapa verðmæti á svæðinu og að byggja upp næstu skref út frá raunverulegum þörfum þeirra.

Sjá nánar í frétt frá Ölfus Cluster. 

Við hjá Ferðaklasanum bjóðum nýja aðildafélga innilega velkomna og hlökkum til að styðja við metnaðarfull verkefni, tengja saman ólíka aðila til að  ná meiri árangri fyrr og styðja ferðaþjónustuna í átt að enn frekari landvinningum. 

Previous
Previous

Bjóðum Önnu Katrínu velkomna!

Next
Next

Ratsjáin með markaðsstofum landshlutanna