Lítil skip fyrir litla staði

AECO - Association of Arctic Expedition Cruise Operator

Klasakastljós dagsins beinist að AECO sem eru samtök leiðangursskipa á Norðurslóðum og öflugur aðili að Íslenska ferðaklasanum.

Gyða Guðmundsdóttir er verkefnastjóri hjá AECO og segir okkur aðeins frá starfseminni.


“Við erum blanda að aðildarfélagi og hagsmunasamtökum, stofnuð árið 2003 á Svalbarða. Þá voru 8 skipafélög sem tóku sig saman vegna þess að fleiri og fleiri skipafélög fóru að bjóða uppá leiðangursiglingar um Svalbarða. Þá var regluverkið fyrir þessa ferðaþjónustu frekar fátæklegt og þessir stofnfélagar hófu að gera leiðbeiningar um hvernig skyldi framkvæma þessar siglingar með virðingu fyrir viðkvæmri náttúru, samfélaginu í Longyearbyen og ýmsum öryggis og umhverfisþáttum. Hugsjónin var sú að "ef við gerum þetta ekki rétt, þá fáum við ekki að halda áfram". Rúmlega tuttugu árum síðar eru leiðbeiningarnar orðnar yfir 65 og spanna fjölbreytt viðfangsefni.” 

Aðalskrifstofan var í Longyearbyen til 2019, en þá flutti hún til Tromsø. Í dag starfa 14 manns hjá AECO, flest staðsett í Tromsø en einnig eru starfstöðvar í Nuuk, Longyearbyen og Kaupmannahöfn þar sem hún Gyða Guðmundsdóttir er staðsett.  

 Í hverju er starfsemi AECO falin?

“Það sem við erum að fást við í dag er tvíþætt, annars vegar að sjá til þess að siglingar leiðangursskipa um Norðurslóðir skapi ábata fyrir staðina sem heimsóttir eru, en að þær séu jafnframt í samræmi við hæðstu gæðastaðla er varða umhverfi og öryggi. Hins vegar að tala fyrir hagsmunum meðlima AECO, sem eru skipafélög leiðangurskipana, í þeim ótalmörgu breytingum sem eiga sér stað í regluverki ferðaþjónustu á Norðurslóðum um þessar mundir. 

“Jákvæð áhrif á nærsamfélög og aukin samvinna skilar árangri”

Við höfum verið aðilar í Ferðaklasanum síðast liðin þrjú ár og þótt frábært að vera partur af "bransanum" á Íslandi. Við leggjum áherslu á nærandi ferðaþjónustu, til dæmis í gegn um Clean Seas og Clean up Iceland, þar sem ferðamenn úr leiðangursskipum ganga fjörur og hirða rusl. Íslenskir tónlistarmenn eru fengnir til að sigla með skipum um stund og leika íslenska tónlist fyrir gesti og þekkt fólk úr þjóðfélaginu fer um borð og segir frá því að vera Íslendingur. Við leggjum áherslu á að meðlimir AECO skapi ábata á þeim stöðum sem heimsóttir eru, hvort sem það er efnahagslegur ábati með beinum kaupum á vöru og þjónustu, ábati í aukinni þekkingu eins og í Nalunajiqsijiit (Inuit Cruise Training Initiative) þar sem inuitar frá Nunavut eru þjálfaðir til að starfa um borð sem leiðsögumenn og svona mætti lengi telja. Borgaravísindi eru einnig stór partur af upplifuninni um borð. 

Ný og spennandi verkefni framundan

Nýjasta verkefnið heitir Made in the Arctic, þar sem við erum að safna saman upplýsingum um staðbundar vörur og þjónustu til að auðvelda skipunum að kaupa meira beint af heimafólki. Hingað til hefur þetta verið stórt excel skjal en nú mun þetta verða stafrænt á heimasíðu AECO með leit og korti. 

"Við teljum að það séu ótal tækifæri í að þróa vörur og þjónustu fyrir þessi skip á Íslandi og vonum innilega að sá ófyrirsjáanleiki sem hefur ríkt undanfarið í regluverkinu á Íslandi sé ekki búinn að vinna varanlegan skaða". 


Fylgstu með AECO hér:

www.aeco.no 

https://www.facebook.com/ArcticCruiseOperators

https://www.linkedin.com/company/aeco

Ef þú lumar á góðri hugmynd eða langar að komast í samband við skipin gyda@aeco.no

Next
Next

Þar sem jörðin lifnar við: Vettvangsnám og nærandi ferðaþjónusta með sjálfbærni að leiðarljósi