Rótgróin nýsköpun í ábyrgri ferðaþjónustu
GJ Travel / Guðmundur Jónasson ehf.
GJ Travel er fjölskyldufyrirtæki stofnað árið 1931 af Guðmundi Jónassyni, brautryðjanda í óbyggðaferðum. Frá fyrstu ferðum á fjallabílum á hálendi Íslands hefur fyrirtækið vaxið og er í dag öflugur ferðaþjónustuaðili með sjálfbærni að leiðarljósi. Hjá fyrirtækinu starfa 49 manns og höfuðstöðvar þess eru í Kópavogi.
Sif Helgadóttir, markaðsstjóri hjá GJ travel segir okkur frá fyrirtækinu og starfseminni.
Í hverju er starfsemi GJ travel falin?
Við bjóðum upp á skipulagðar hópferðir, sérsniðnar ferðir innanlands, hópferðabílaþjónustu og ferðir erlendis. Allir hópferðabílar GJ Travel uppfylla Euro 6 mengunarstaðalinn, eru útbúnir öryggisbúnaði af nýjustu gerð og öryggismenning innan fyrirtækisins er sterk.
GJ Travel er virkur þátttakandi í verkefnum á borð við CE4RT og Katla Carbon (áður Sogreen). Frá upphafi höfum við tekið þátt í flestum uppbyggjandi verkefnum í íslenskri ferðaþjónustu og erum meðal annars stofnmeðlimir SAF og Íslenska ferðaklasans.
Í febrúar hlaut fyrirtækið Hvatningarverðlaun ábyrgrar ferðaþjónustu, verðlaun sem við erum mjög þakklát fyrir. Við tengjum sjálfbærnistefnu okkar við heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna og höfum alla tíð lagt ríka áherslu á tengsl við samfélög og náttúru.
Nýlega höfum við þróað nýja þjónustu með aðferðafræði nærandi ferðaþjónustu sem hluta af nýsköpun okkar.
„Við finnum stöðugt fyrir auknum áhuga ferðamanna á að skilja eftir sig jákvæð áhrif – og við viljum hjálpa þeim að gera það. Við horfum alltaf til komandi kynslóða.“