Hvernig mælum við raunverulegan árangur í ferðaþjónustu?
Ferðaklasinn, í samstarfi við aðila úr stoðkerfi ferðaþjónustunnar, fékk styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna til rannsóknar á tengslum sjálfbærni og rekstrarhagkvæmni í ferðaþjónustu. Markmið verkefnisins er að greina hvernig innleiðing sjálfbærra lausna getur stuðlað að aukinni arðsemi, bættri nýtingu og sterkari ímynd fyrirtækja.
Rannsóknin felur í sér djúpviðtöl við stjórnendur, gagnaöflun frá starfsfólki og viðskiptavinum, og samanburð við fyrirmyndarfyrirtæki í greininni. Niðurstöðurnar verða nýttar til að þróa aðgerðaáætlun og stafrænt matskerfi sem styður fyrirtæki á sjálfbærni vegferð sinni.
Umsjónarmaður nemanda er Gunnar Þór Jóhannsson, prófessor við Háskóla Íslands en Háskólinn er jafnframt einn af meðumsækjendum að rannsókninni. Aðrir meðumsækjendur og samstarfsaðilar eru Ferðamálastofa, SAF og Hæfnisetur ferðaþjónustunnar.
Verkefnið einkennist af nýsköpun með áherslu á hagnýtingu sjálfbærni hugmynda í daglegum rekstri og er ætlað að efla samkeppnishæfni greinarinnar. Verkefnið er unnið af Rakel Birtu Hafliðadóttur, hagfræðinema. Hún mun hafa vinnuaðstöðu hjá Íslenska ferðaklasanum og flakka vítt og breitt um landið til að tryggja breidd í rannsóknina.
Nýsköpunargildi verkefnisins
Nýsköpunargildi verkefnisins liggur í þróun aðferða sem tengja saman sjálfbærni og rekstrarhagkvæmni,
þar sem ný þekking og nálganir eru innleiddar til að styrkja samkeppnisstöðu fyrirtækisins.
Sjálfbærnihugtakið hefur verið gagnrýnt fyrir að vera loftkennt og erfitt að átta sig á hvert gildi þess sé í
daglegum rekstri fyrirtækja. Þetta verkefni miðar að því að greina tækifæri til að innleiða
sjálfbærniaðgerðir í starfsemi fyrirtækis.
Hagnýtingargildi verkefnisins.
Hagnýtingargildi verkefnisins liggur í því að þróa lausnir sem gera fyrirtækjum í ferðaþjónustu kleift að
bæta rekstrarhagkvæmni og auka sjálfbærni í starfsemi sinni. Þessar lausnir munu hafa möguleg áhrif á
fjárhagslega afkomu fyrirtækisins, bæta nýtingu og styrkja ímynd þess gagnvart viðskiptavinum sem
gera æ meiri kröfur um sjálfbærni.
Fyrirtæki óska eftir hagnýtum tólum og tækjum til að vinna að sjálfbærni í rekstri og mikilvægt er að
þróun þeirra sé byggð á traustum fræðilegum grundvelli.
Efni þessu tengt var einnig að finna í aðsendri grein á Vísi á dögunum en þar fóru framkvæmdastjóri Ferðaklasans og Inga Hlín, frakvæmdastjóri Markaðsstofu höfuðborgarsvæðisins yfir samstarf við fyrirtækin og hvernig við horfum á mismunandi mælikvarða á árangur.
“Við sem störfum með fyrirtækjum eigum eitt sameiginlegt markmið: að þau nái árangri. En hvað er raunverulegur árangur?
Fjárhagslegur árangur er oft það fyrsta sem litið er til – hvað situr eftir í kassanum? En sá árangur næst ekki nema með markvissri rekstrarstjórn, að þekkja lykiltölur og draga úr kostnaði, t.d. vegna rafmagns, eldsneytis, sorps eða matarsóunar. Þetta er grunnurinn – en hann segir ekki allt.
Sífellt fleiri fyrirtæki átta sig á mikilvægi samfélagslegrar ábyrgðar. Mælikvarðar eins og ánægja starfsmanna og íbúa, stuðningur við íþróttastarf, innkaup í heimabyggð og þátttaka í samfélagsverkefnum skipta máli. Þátttaka í samfélaginu styrkir tengsl og hefur bein áhrif á upplifun gesta – og þar með endurtekna heimsókn.
Ferðaþjónustan hefur sýnt leiðtogahlutverk, t.d. í verndun náttúru og talningu villtra dýra, fræðslu um jökla og mikilvægi réttrar umgengni og ferðahegðunar. Gestir taka virkan þátt, öðlast dýpri tengingu og ferðast heim með þekkingu og lærdóm sem getur haft áhrif víðar.
Fyrirtæki bera einnig ábyrgð á því hvaða valmöguleikar eru mest áberandi: Er rafmagnsbíll sjálfgefið val? Er rétturinn með staðbundnu hráefni mest áberandi? Er boðið upp á samfélagsverkefni fyrir gesti?
Við fáum yfir 2 milljónir ferðamanna árlega. Hver og einn er tækifæri til að hafa áhrif – einn einstaklingur í einu, einn dag í einu. Ferðaþjónustan getur verið afl til góðra verka og lykill í sjálfbærri og nærandi byggðaþróun.
Raunverulegur árangur mælist í áhrifum – ekki aðeins á reksturinn, heldur á samfélagið, náttúruna og gestina.”